Lokaorð Lýðsbarna

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu vikur um hagi föður okkar Lýðs Ægissonar, þá þurfti hann að flytjast úr öryggisíbúð á vegum Eirar yfir á hjúkrunardeild einnig hjá Eir vegna alvarlegra veikinda.

Lýður Ægisson – Mynd: Ófeigur Lýðsson

Þar sem uppsagnarfrestur á öryggisíbúðinni er 6 mánuðir og tekjur hans duga ekki til að greiða leigu á báðum stöðum í einu, lá beinast við að óska eftir styttingu á uppsagnarfresti í ljósi aðstæðna.  Enda segir í 23. grein laga um málefni aldraðra:  „Þess skal ætíð gætt að [heimilismaður] haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé…“

Búið er að greiða tvo mánuði af uppsagnarfresti og hyggst Eir nú fara með málið til dómstóla í þeim tilgangi að innheimta hina fjóra mánuðina auk vaxta.

Ítrekuð ósannindi

Ósannindin eru merkt með rauðu hér að neðan

#1
Í lok nóvember 2017 óskaði Kristín Sigurðardóttir fréttamaður hjá RÚV eftir viðtali við Sigurjón, en hann hefur verið í forsvari fyrir hönd okkar systkina vegna málsins.  Hún sagðist einnig hafa hringt í Eir og verið gefið samband við forstjórann þegar hún bar upp erindið.

Forstjórinn sagði við hana að aðstandendur Lýðs hefðu aldrei sagt samningnum upp formlega.

Hún upplýsti hann þá um að hún hefði gögn undir höndum sem sýndu hið gagnstæða.  Þessi gögn voru svo birt í sjónvarpsviðtalinu sem birtist á RÚV þann 28. nóvember 2017 og þau má einnig sjá hér að neðan.

Skjáskot úr frétt RÚV þann 28. nóvember 2017
Skjáskot úr frétt RÚV þann 28. nóvember 2017

Á þessum tímapunkti vorum við ekkert að velta okkur upp úr ummælum forstjórans.  Hugsanlega var hann einfaldlega illa upplýstur.  En maður spyr sig þó hvers vegna hann var þá í forsvari.

Þarna vorum við komin með lögfræðing í þeim tilgangi að vinna að lausn og vorum tilbúin að greiða þriðja mánuðinn sjálf.

Tveimur dögum síðar þann 30. nóvember birtist viðtal á RÚV vegna málsins við Svein Magnússon forstöðumann eignaumsýslu hjá hjúkrunarheimilinu.

Skjáskot af vef RÚV

Þar fer hann ítrekað með ósannindi sem við getum engan veginn setið undir.  Það vill þannig til að vinnulag okkar systkina er þannig að við höfum allt skriflegt.  Það er því auðvelt að rekja og hrekja þessi ósannindi.

#2
Önnur ósannindi hefjast strax í fyrstu málsgrein:

„Aðstandendur mannsins sem var gert að greiða af bæði öryggisíbúð og hjúkrunarrými þar hafi þó ekki sagt íbúðinni upp þegar Eir hafði ráðlagt það.“

Svo er haldið áfram í þriðju málsgrein:

„Sveinn Magnússon forstöðumaður eignaumsýslu hjá hjúkrunarheimilinu Eir segir að þrýst hafi verið á aðstandendur að segja íbúðinni upp strax í desember [2016 innsk.] þegar maðurinn hafði verið fluttur á sjúkrahús, ófær um að dvelja áfram í íbúðinni.“

Í fyrsta lagi höfðu starfsmenn eignaumsýslu Eirar ekki hugmynd um að Lýður væri á sjúkrahúsi í desember  2016 og þaðan af síður að hann væri ófær um að sjá um sig sjálfur til frambúðar.  Við vissum það ekki einu sinni sjálf á þessum tímapunkti.

Það sem við vissum hins vegar, er að málið var alvarlegra en áður og þyrfti þess vegna að rannsaka ítarlega. Læknar voru ekki heldur að átta sig á alvarleika málsins og þurftum við að hafa mikið fyrir því að fá ítarlega rannsókn.

Í millitíðinni var hann sendur heim, þar sem Björk Unnarsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjá Eirborgum tók á móti honum og sendi hann strax til baka í sjúkrabíl vegna ástands hans.

Þrátt fyrir það áttum við ekki von á öðru en að hann kæmi heim fyrir jól eins og sést á facebook ummælum Ófeigs 8. desember 2016.

Skjáskot af Facebook færslu.

Það var ekki fyrr en í febrúar 2017 að hæfni- og heilsumat skilaði þeirri niðurstöðu eftir langt og strangt ferli að hann væri ófær um að sjá um sig sjálfur til frambúðar.  Á þeim tímapunkti var ljóst að hann færi ekki aftur í íbúðina.

Björk er fagmanneskja fram í fingurgóma og hefur reynst okkur gríðarlega vel.  Það lá því beinast við að leita til hennar eftir upplýsingum þegar kom að því að segja upp íbúðinni.

Skjáskot af tölvuskeyti.

Eins og sést á tölvuskeytinu hér að ofan, þá leituðum við eftir upplýsingum í febrúar 2017 um hvert við ættum að snúa okkur varðandi uppsögn.  Ef þrýst hefði verið á okkur að segja upp í desember 2016, þá hefðum við væntanlega þegar haft þessar upplýsingar og ekki þurft að leita eftir þeim sjálf.

Forsvarsmenn eignaumsýslu Eirar höfðu aldrei samband við okkur af fyrra bragði, hvorki með tölvupósti né í síma.  Á tímum sundurliðaðra símareikninga er auðvelt að hrekja þessi ósannindi, en við látum tölvuskeytið hér að ofan duga.

#3.
Í þriðju málsgrein er áfram farið með rangt mál:

„Íbúðinni er ekki sagt upp fyrr en viðkomandi er kominn inn á hjúkrunarheimili og þar stendur hnífurinn í kúnni“

Íbúðinni var sagt upp 27. febrúar 2017 og Lýður fór inn á Eir í mars.  Þessi ummæli eru því ekki heldur rétt.

#4.
Í fjórðu málsgrein er enn farið með rangt mál:

Það voru gerð þrjú drög að nýjum samningum og aðstandendur Lýðs látnir vita í því sambandi til að halda þeim upplýstum um gang mála.“

Við höfum ekki hugmynd um hvað Sveinn er að vísa í hér. Hvort hann er að tala um drög að nýjum leigusamningum við þriðja aðila sem ekki gengu eftir, eða drög að uppsagnarsamningi.  Hvað sem hann er að vísa í, þá höfum við aldrei verið látin vita.  Hvorki með tölvupósti né í síma. Hér er því enn farið með rangt mál.

Eins og fram kemur hér að ofan getum við engan veginn setið undir þessum ósannindum.  Okkar hugur var alltaf að semja um málalok sem myndu henta báðum málsaðilum vel.  En eftir framkomu forsvarsmanna gagnvart okkur í fjölmiðlum, þar sem ítrekað er farið með ósannindi, höfum við misst áhugann á að semja við þetta fólk og höfum því ákveðið að leyfa þeim að fara með þetta sína leið.

Nú kann einhver að spyrja hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að kyngja þessum ósannindum og láta ógert að svara, í ljósi þess að Lýður dvelur inni á Eir og þetta gæti hugsanlega bitnað á honum.

Svarið okkar er: Nei, alls ekki!

Bæði vegna þess að á hjúkrunarfólkið á Eir er fagfólk upp til hópa og myndi aldrei láta þetta bitna á honum.
Og hins vegar vegna þess að eitt af því sem gamli kenndi okkur, var að láta aldrei vaða yfir okkur.

Þessu máli er nú lokið af okkar hálfu.
Kærar þakkir fyrir stuðninginn og áheyrnina.
Börn Lýðs Ægissonar.